149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

póstþjónusta.

739. mál
[18:32]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um póstþjónustu, nr. 19/2002, með síðari breytingum (erlendar póstsendingar og rafrænar sendingar), frá umhverfis- og samgöngunefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á sinn fund Skúla Þór Gunnsteinsson, Guðbjörgu Sigurðardóttur og Unni Elfu Hallsteinsdóttur frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Ingimund Sigurpálsson og Tryggva Þorsteinsson frá Íslandspósti, Hrafnkel Gíslason, Björn Geirsson og Friðrik Pétursson frá Póst- og fjarskiptastofnun, Ólaf Stefánsson frá Félagi atvinnurekenda og Breka Karlsson og Einar Bjarna Einarsson frá Neytendasamtökunum. Nefndinni bárust umsagnir frá Póst- og fjarskiptastofnun, Neytendasamtökunum, Samtökum verslunar og þjónustu, Samkeppniseftirlitinu og Félagi atvinnurekenda.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um póstþjónustu, m.a. þess efnis að rekstraraðila verði heimilt að setja gjaldskrá fyrir erlendar póstsendingar sem á að mæta raunkostnaði við sendingar, og sömuleiðis breytingar þar sem áréttað er að íslensk póstlög gangi framar alþjóðaskuldbindingum á sviði póstmála. Þannig verði tekið mið af óbættum raunkostnaði við gjaldtöku vegna erlendra pakkasendinga óháð ákvæðum um endastöðvarsamninga.

Á fundi nefndarinnar kom fram að nauðsynlegt væri að bregðast við því tapi sem Íslandspóstur ohf. hefði þurft að bera vegna erlendra póstsendinga og gera viðeigandi lagabreytingar svo fyrirtækinu yrði unnt að innheimta gjöld af viðtakendum erlendra póstsendinga til að standa undir raunkostnaði, m.a. við vinnslu, vörslu og dreifingu sendinganna. Nefndinni var bent á að samkvæmt starfsþáttayfirliti Íslandspósts ohf. fyrir árið 2017, sem Póst- og fjarskiptastofnun hafði samþykkt, væri tap félagsins vegna erlendra póstsendinga sem heyra undir samkeppni innan alþjónustu alls 731 milljón króna og stafaði tapið einkum af óhagstæðum endastöðvarsamningum.

Netverslun við fyrirtæki erlendis fer vaxandi. Nefndin telur mikilvægt að sporna við sívaxandi tapi póstsins vegna slíkra sendinga og tryggja að slíkt tap lendi ekki á alþjónustusjóði eða eftir atvikum ríkissjóði. Ekki á að leggja á herðar ríkisins að greiða með erlendum póstsendingum þar sem lág endastöðvargjöld standa ekki undir raunkostnaði og fellst nefndin á nauðsyn þess að bregðast við þeirri stöðu sem uppi er.

Þá bendir nefndin á að umtalsverð neikvæð umhverfisáhrif eru á fjölda smásendinga sem flogið er yfir hálfan hnöttinn með tilheyrandi kolefnisspori.

Nefndinni var bent á að tekjur rekstrarleyfishafa af endastöðvargjöldum sem standa eiga undir kostnaði við vinnslu og dreifingu stæðu einungis undir um 30–35% af kostnaði sendinga sem koma frá Asíu. Tekjur af sendingum sem koma frá vestrænum ríkjum stæðu undir u.þ.b. 70% af kostnaði við þær. Íslandspóstur ohf. hefði ekki talið að fyrirtækjunum væri heimilt samkvæmt gildandi lögum að innheimta gjöld af viðtakendum erlendra sendinga til að mæta kostnaði sem lág endastöðvargjöld standa ekki undir.

Nefndin áréttar að gjaldinu, sem mælt er fyrir um í frumvarpi þessu, er ætlað að bæta það tap sem núverandi rekstrarleyfishafi, Íslandspóstur ohf., telur sig verða fyrir vegna óhagstæðra endastöðvargjalda sem mælt er fyrir um í alþjóðasamningum. Í samningnum er ríkjum skipt upp eftir landsvæðum og fer sú skipting eftir því hversu þróuð ríkin eru talin vera samkvæmt mati Alþjóðapóstsambandsins á hverjum tíma. Endastöðvargjöld taka mið af þessari svæðaskiptingu og eru lægri þegar um þróunarríki er að ræða, sem á við um póstsendingar frá Asíu. Endastöðvargjöldin eru hærri þegar um þróaðri ríki er að ræða. Tap rekstrarleyfishafa er því mismunandi eftir því frá hvaða erlenda ríki eða landsvæði póstsendingin kemur.

Nefndin leggur áherslu á að gjaldskrá vegna erlendra póstsendinga skuli endurspegla þennan óbætta raunkostnað rekstrarleyfishafa sem hlýst af ónógum endastöðvargjöldum. Gjaldið skuli taka mið af því hvaðan sendingin kemur ef það hefur áhrif á óbættan raunkostnað rekstrarleyfishafa. Nefndin áréttar að gjald þetta skuli ekki notað til að standa straum af neinum öðrum kostnaði en þeim sem beint má leiða af hinum erlendu póstsendingum. Taprekstri Íslandspósts ohf. vegna annarra þátta verður ekki mætt með þessu gjaldi.

Nefndin leggur áherslu á að áður en gjaldtaka hefjist verði hún kynnt með skýrum hætti. Þá sé brýnt að neytendur geti með auðveldum hætti kynnt sér á einum stað hvaða gjöld þurfi að greiða fyrir móttöku erlendra póstsendinga og að ljóst sé fyrir hvaða þjónustu sé greitt hverju sinni.

Samkvæmt 3. málslið 4. mgr. 16. gr. laga er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að krefjast þess að rekstrarleyfishafar geri grein fyrir kostnaði á grundvelli gjaldskrár þeirra. Líkt og fram kom á fundi nefndarinnar er slíkt gert á grundvelli kæru eða sem frumkvæðisathugun stofnunarinnar og getur tekið töluverðan tíma. Til þess að tryggja strax í upphafi gjaldtöku að fjárhæð gjaldsins byggist á raunkostnaði leggur nefndin til að kveðið verði á um það í 4. mgr. 16. gr. laganna að rekstrarleyfishafar skuli gera Póst- og fjarskiptastofnun grein fyrir kostnaðargrundvelli gjaldskrár vegna erlendra póstsendinga eigi síðar en fimm virkum dögum áður en hún tekur gildi. Póst- og fjarskiptastofnun beri því að hafa fyrir fram eftirlit með því að gjaldskráin taki mið af þeim óbætta raunkostnaði sem rekstrarleyfishafi gerir ráð fyrir að hljótist af erlendum póstsendingum.

Um gildistöku og lagaskil segir:

„Samkvæmt 8. gr. frumvarpsins öðlast lögin þegar gildi. Verði frumvarpið að lögum verður rekstrarleyfishafa heimilt að innheimta nýtt gjald af neytendum. Að mati nefndarinnar er brýnt að gjald þetta verði kynnt neytendum með greinargóðum hætti svo að þeir geti haft gjaldið til hliðsjónar við kaup á vefnum. Leggur nefndin því til að lögin taki gildi um mánuði eftir að þau eru samþykkt, enda gefist rekstrarleyfishafa færi á að kynna áform sín um breytta gjaldskrá og álagningu gjaldsins og neytendur hafi kost á að endurskoða kaup sín eða jafnvel hætta við þau ef svo ber undir.

Með hliðsjón af sjónarmiðum um lagaskil telur nefndin jafnframt nauðsynlegt að kveða skýrt á um til hvaða póstsendinga lögin muni ná. Leggur nefndin því til að við lögin bætist ákvæði þess efnis að 4. og 5. gr. laganna gildi um erlendar póstsendingar sem stimplaðar eru með dagstimpli erlendis eftir miðnætti að íslenskum tíma þann dag sem lögin taka gildi.“

Í ljósi framangreindra sjónarmiða leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu að við 4. gr. bætist nýr stafliður, b-liður, og að 8. gr. frumvarpsins, þ.e. gildistökuákvæðið, verði 15. maí 2019.

Karl Gauti Hjaltason og Vilhjálmur Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifa undir álitið í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis. Hanna Katrín Friðriksson var fjarverandi við afgreiðslu málsins en skrifar undir álitið með fyrirvara sem hún gerir grein fyrir í ræðu, í samræmi við 4. mgr. 18. gr. starfsreglna fyrir fastanefndir Alþingis.

Jón Þór Þorvaldsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálitið skrifa Jón Gunnarsson, Ari Trausti Guðmundsson, Hanna Katrín Friðriksson, með fyrirvara, Karl Gauti Hjaltason, Líneik Anna Sævarsdóttir, Páll Valur Björnsson, Una Hildardóttir og Vilhjálmur Árnason.

Virðulegur forseti. Þetta mál hefur fengið til þess að gera stuttan tíma hér í þinginu. Í upphafi áætlaði nefndin að gefa sér lengri tíma, en fram komu ábendingar og óskir um að brýnt væri að hraða þessu máli í ljósi þess að reikna má með því, samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu fyrir nefndinni, að tap Íslandspósts á mánuði vegna þessa sé a.m.k. 50 millj. kr. ef ekki meira. Hér er því mikið undir fyrir fyrirtækið.

Ég vil því þakka nefndarmönnum alveg sérstaklega fyrir gott samstarf í þessu máli. Í fyrsta lagi að við tókum höndum saman og settum á aukafund í nefndinni vegna þessa máls og fengum til okkar þá gesti sem talið var að brýnast væri að hitta og styttum síðan umsagnarfrestinn í samræmi við það. Er skemmst frá því að segja að auðvitað hafa aðilar ýmsar athugasemdir og spurningar varðandi rekstur póstsins. Það er nokkuð sem við þekkjum úr umræðu síðustu vikna og mánaða og jafnvel lengur.

Fyrir liggur annað mál, stærra að umsvifum, sem tekur á heildarmálefnum fyrirtækisins og við gerum okkur vonir um að afgreiðslu þess verði lokið áður en þing lýkur störfum í vor eða sumar. Ég held að ég megi segja að allir umsagnaraðilar og gestir hafi í sjálfu sér verið sammála þeirri niðurstöðu sem hér er, þá kannski ekki síst á grundvelli þess að það getur ekki talist eðlilegt að ríkið, sem á þetta fyrirtæki, Póstinn ohf., sé að niðurgreiða viðskipti sem stunduð eru í gegnum netið í samkeppni við aðra verslun í landinu. Slíkt lendir alltaf á endanum á neytendum og gerir verslun óhagkvæmari hér innan lands.

Í ljósi þessa, þrátt fyrir ýmsar umræður um aðra starfsemi og annað sem viðkemur póstinum, voru nefndarmenn sammála um að afgreiða málið með þessum hætti og ég ítreka þakkir mínar til nefndarinnar og til þingsins fyrir að setja þetta mál svo fljótt sem raun ber vitni á dagskrá.