149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

póstþjónusta.

739. mál
[18:44]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að þetta hefur engin áhrif á alþjónustuna, þetta hefur engin áhrif á dreifingu og aðra þjónustu póstsins. Fyrst og fremst er þarna um að ræða afmarkaða gjaldtöku sem eingöngu er hugsuð til þess að standa undir þeim viðbótarkostnaði sem pósturinn verður fyrir vegna aukinnar verslunar á netinu.

Við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum í póstþjónustu, eins og allar aðrar þjóðir í sjálfu sér. Dregið hefur verulega úr öllum bréfsendingum og slíku og við höfum séð að samhliða því hefur verði dregið úr póstburðardögum og þeirri þjónustu. Það er eitthvað sem við þurfum að horfast í augu við í framtíðinni. Sum ríki hafa m.a. gengið svo langt að banna öllum opinberum rekstri að senda bréf, það fari allt rafrænt, og hafa verið stigin ákveðin skref í því hérlendis líka.

En þetta er alveg sérstakt vandamál líka sem við stöndum frammi fyrir til sveita, vegna þess að eins og við þekkjum, ekki síst þau sem hafa verið í sveitinni, kemur pósturinn á brúsapallinn, eins og það hét alla vega. Nú eru oft miklu meiri verðmæti í þeim póstsendingum vegna þess að menn eru að panta sér varahluti og alls konar aðrar vörur í gegnum netverslanir. Það eru þess dæmi að óprúttnir aðilar fari um sveitir landsins og hreinlega steli vörunum af brúsapöllunum. Þetta hefur komið fram m.a. hjá Bændasamtökunum og er áhyggjuefni sem þarf að bregðast við og er hluti af þeim lausnum sem við þurfum að innleiða í póstþjónustu á komandi tímum.