149. löggjafarþing — 92. fundur,  10. apr. 2019.

póstþjónusta.

739. mál
[19:18]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið og spurningarnar og vangavelturnar. Ég held að þetta séu viðfangsefni næstu daga og vikna. Ég segi fyrir mig með nákvæmnina að ég hef skilning á því að menn þurfi að hafa eitthvert borð fyrir báru í því að meta þetta. Þess mikilvægara er, ef þetta verður viðvarandi ástand, þá meina ég til einhverra ára á meðan aðstæður á heimsmarkaði breytast, að þetta verði aðlagað. En mikilvægast af öllu finnst mér að kostnaður sé rukkaður þar sem kostnaður verður til og menn taki ekki eitthvert eitt jafnaðargjald. Ég nefni sem dæmi þær upplýsingar sem komu fram um að vegna þess hve verðlítil að jafnaði hver sending er sem kemur frá Kína þá muni þetta gjald sem lagt er á, 100 kr., hafa hlutfallslega mest áhrif þar. Það mun líklega gera það að verkum að þeim sendingum fækki en hafi hlutfallslega minni áhrif á sendingar frá Vesturlöndum, þar verði ekki áhrif. Þá erum við strax kominn með kostnaðarhliðrun. Þá skyldi maður ætla að það væri hægt að lækka gjaldið, er það ekki, ef þetta á að standa undir raunkostnaði? Þannig að þessir útreikningar eru mjög mikilvægir en það er enginn annar en við sem verðum á tánum þarna. Ég hugsa að við munum eiga ansi miklar umræður um þessi mál, bæði innan nefndar og í þingsal, áður en við verðum ánægð með útkomuna.