149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

siglingavernd.

642. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. um.- og samgn. (Ari Trausti Guðmundsson) (Vg):

Herra forseti. Ég geri hér grein fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um siglingavernd, nr. 50/2004, með síðari breytingum. Það fjallar sem sagt um dagsektir, laumufarþega og fleira. Þetta er frá hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Ég geri það í fjarveru framsögumanns, sem var Vilhjálmur Árnason, en hann er við önnur þingstörf og fjarverandi þar með.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ástu Sóllilju Sigurbjörnsdóttur frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

Nefndinni barst ein umsögn, frá Hafnasambandi Íslands.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um siglingavernd og lúta þær annars vegar að því að mæla fyrir um heimild Samgöngustofu til þess að beita eftirlitsskylda aðila dagsektum, uppfylli þeir ekki skyldur sínar samkvæmt ákvæðum laganna, og hins vegar að mæla fyrir um refsingu við brotum á banni við að fara í heimildarleysi inn á haftasvæði siglingaverndar, þ.e. inn á sérstök svæði sem þannig eru skilgreind í höfnum landsins..

Líkt og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er það lagt fram í kjölfar samþykktar laga nr. 71/2018, um breytingu á lögum um siglingavernd og lögum um loftferðir, frá 8. júní 2018. Þetta kemur sem sagt í kjölfar ákveðinna laga. Í meðförum nefndarinnar á því máli (263. mál á 148. löggjafarþingi) voru ákvæði um refsingar, stjórnvaldssektir og dagsektir felld brott og því beint til ráðuneytisins að endurskoða tillögu sína um slík ákvæði með hliðsjón af nánar tilgreindum sjónarmiðum, m.a. sjónarmiðum um meðalhóf.

Nefndin lýsir ánægju sinni með vinnslu málsins hjá ráðuneytinu og telur að með frumvarpi þessu sé brugðist við þeim ábendingum og athugasemdum sem nefndin gerði við málið í áliti sínu á þingskjali 1056. Leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Björn Leví Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu, ásamt formanni, Jóni Gunnarssyni, framsögumanni, sem hér átti að vera, Vilhjálmi Árnasyni og þeim sem hér stendur, Ara Trausta Guðmundssyni. Fleiri skrifa undir: hv. þm. Bergþór Ólason, Helga Vala Helgadóttir, Hanna Kristín Friðriksson, Karl Gauti Hjaltason, Líneik Anna Sævarsdóttir og Rósa Björk Brynjólfsdóttir.

Ég hef þá þar með gert grein fyrir þessu stutta nefndaráliti sem hefur að niðurstöðu að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.