149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

ófrjósemisaðgerðir.

435. mál
[16:39]
Horfa

Frsm. velfn. (Ólafur Þór Gunnarsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur fyrir andsvarið. Jú, það fór fram, eðlilega, eins og þingmaðurinn gat sér til um, umræða um þessi mál í nefndinni. Þau sjónarmið komu m.a. fram hvort yfirleitt væri þörf á að hafa heimildarákvæðið. Það var samt niðurstaða nefndarinnar, bæði eftir heimsóknir og umræður í nefndinni, að það væri skynsamlegt.

Hins vegar, eins og ég gat um áðan, telur nefndin að heimildarákvæðið sé einmitt það — heimildarákvæði. Því eigi að beita í algerum undantekningartilvikum og það eigi alltaf að reyna að beita öðrum aðgerðum fyrr en að fara beinlínis í að gera ófrjósemisaðgerðir á einstaklingi sem kannski getur ekki sagt til um það.

Það fóru einnig fram miklar umræður um að það væri mikilvægt að tryggja að jafnvel þessir einstaklingar ættu kost á upplýsingum og fræðslu sem væru í samræmi við þeirra getu til að taka við slíkum upplýsingum og að til að mynda starfsfólk eins og þroskaþjálfar, félagsráðgjafar, eftir atvikum, sem væru sérstaklega færir til að sinna slíkri fræðslu, væru fengnir til þeirra verka.