149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

ófrjósemisaðgerðir.

435. mál
[16:43]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Mig langar að draga fram þá þætti saman sem mér finnast skipta hvað mestu máli í nefndaráliti velferðarnefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um ófrjósemisaðgerðir. Fyrst vil ég taka eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Í umsögnum um málið og við umfjöllun nefndarinnar var lýst áhyggjum af því að úrræðinu verði beitt óhóflega og að viðkomandi forspurðum. Þá var lýst yfir áhyggjum af reynslu fyrri ára hvað varðar ófrjósemisaðgerðir seinfærra og fatlaðra einstaklinga og að ákvæðinu yrði beitt gegn vilja og í einhverjum tilfellum án vitundar viðkomandi.“

Mér finnst mikilvægt að fram komi að með nefndarálitinu sé lögð sérstök áhersla á að koma til móts við þetta sjónarmið.

Einnig kom fram það sjónarmið að alla jafna væru slíkar ófrjósemisaðgerðir óafturkræfar. Þess vegna er mikilvægt að vanda alla ákvarðanatöku. Huga þarf sérstaklega að fræðslu til einstaklinga.

Að lokum vil ég segja og leggja þá sérstaklega áherslu á það sem rætt var rétt áðan þar sem fram kemur að frekar eigi að leitast við að nota úrræði eins og langtímagetnaðarvarnir. Það er að mínu mati lykilatriði í þessu nefndaráliti.