149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Það var svo margt í þessari ræðu að ég veit eiginlega ekki hvar ég á að byrja. Mér finnst vera svo mikið ósamræmi í orðum hv. þingmanns. Hann talar um að 3. minni hluti virði að sjálfsögðu sjálfsákvörðunarrétt kvenna og yfirráð þeirra yfir eigin líkama. En á sama tíma ætlar hann að takmarka rétt kvenna til að fara í þungunarrof — og mig langar kannski bara til að fá að heyra frá hv. þingmanni hvort ég skilji þetta rétt, hann er að leggja til að ef kona fer ekki í þungunarrof fyrir 12. viku, eða ef ekki eru ótvíræðar, læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konu sé stefnt í meiri hættu með lengri meðgöngu eða fæðingu, þá eigi bara að neyða þá konu til að eignast barnið? Skil ég hv. þingmann rétt, að það sé niðurstaðan af þessu ferli?