149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:10]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég myndi vilja fá aðeins betri skýringu frá hv. þingmanni á þeirri línu sem hann segist draga á milli sjálfsákvörðunarréttar konunnar og lífs ófædds barns og öðrum ummælum sem hann hefur látið falla hér, m.a. þegar kemur að fóstureyðingu eða þungunarrofi í kjölfar nauðgunar.

Hv . þingmaður sagði í ræðu sinni að honum fyndist að við ættum að fresta þessu máli og vinna það betur. En það er ekki það sem hv. þingmaður leggur til í nefndarálitinu sínu. Hann leggur ekki til frávísun til ríkisstjórnarinnar. Hann leggur til að markið verði fært niður í 12 vikur og eina undanþágan sé ef líf móður er í hættu eða barn eða fóstur telst ekki lífvænlegt.

Ég velti fyrir mér, af því að hv. þingmaður minntist á 16 vikur rétt áðan: Er það eitthvað á reiki hjá honum hvar þau mörk eigi að liggja? Núna eru þau til 22. viku í sumum tilfellum. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður átti sig á því að með (Forseti hringir.) breytingartillögum sínum sé hann að þrengja (Forseti hringir.) verulega að rétti kvenna til heilbrigðisþjónustu frá því sem nú er.