149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:21]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú ýmislegt sem ég myndi vilja ræða hér við hv. þm. Guðmund Inga Kristinsson, þar á meðal hugmyndir hans um þrengingu á löggjöfinni sem um ræðir. Ég myndi gjarnan vilja að hv. þingmaður útskýrði fyrir mér orð sem féllu í ræðu hans um að bera saman dauðarefsingu og þungunarrof. Mér finnst það í hæsta máta óviðeigandi og óvirðing við allar þær konur og stúlkur sem hafa farið í þungunarrof. Mér finnst það ekki sæma þingmanni á Alþingi Íslendinga að tala með þeim hætti sem hann gerir, að bera saman þungunarrof og dauðarefsingu.

Ákvörðun um að eyða lífi er skelfileg, segir hv. þingmaður. Ég get alveg fullvissað hv. þingmann um að það er nú einu sinni svo að þungunarrof er ekkert gamanmál eða léttúðleg ákvörðun sem konur og stúlkur taka að gamni sínu eða noti það sem getnaðarvörn, eins og fram kom í máli hv. þingmanns. Ég get ekki heldur séð að þessi samanburður rími við setninguna hjá hv. þingmanni um að hann virði sjálfsákvörðunarrétt kvenna og yfirráð þeirra yfir eigin líkama.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um setninguna sem fram kemur í nefndaráliti hans: (Forseti hringir.) Það er almennt viðurkennt að í nær öllum tilvikum er konum fullkunnugt um þungun sína fyrir 12. viku meðgöngu. Ég spyr: Hvað með þær konur (Forseti hringir.) og stúlkur sem búa við erfiðar (Forseti hringir.) félagslegar aðstæður? Hvernig getur (Forseti hringir.) hv. þingmaður (Forseti hringir.) fullyrt að þær viti um þungun sína fyrir 12 viku?