149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Hv. þingmaður kom einmitt inn á það að málið er umdeilt í samfélaginu öllu. Mig langar t.d. bara að nefna, sem dæmi, umsögn Læknafélags Íslands um frumvarpið. Læknafélagið er mótfallið því að þungunarrof verði heimilað til loka 22. viku. „Læknafélagið sér ekki ástæðu til að Ísland gangi í þessu frumvarpi lengra en nokkurt hinna Norðurlandanna hefur séð ástæðu til að gera og leggur Læknafélagið til að fyrirkomulag gildandi laga að þessu leyti verði áfram viðhaft.“

Rök félagsins eru með tvennum hætti. Í fyrsta lagi tekur Læknafélagið fram að í núgildandi lögum séu hvort eð er tímamörkin sett fram með þeim hætti að þau gefi konum ætíð kost á því að leita þungunarrofs; og síðan vísar félagið til Norðurlandanna, að við eigum ekkert að skera okkur úr hvað Norðurlöndin varðar. Eins og við þekkjum berum við okkur oft saman við Norðurlöndin.

En nú gerist það að þessi umsögn er dregin til baka. Hvað segir það okkur? Það segir okkur það að það ríkir mikið ósætti innan heilbrigðisstéttarinnar, meðal lækna, um þetta mál. Ég held að það séu fyrst og fremst skilaboðin sem liggja í því að þetta er dregið til baka.

Þannig að ósættið er víða í samfélaginu. Það er ekki bara meðal almennings. Það er auk þess meðal heilbrigðisstarfsfólks og lækna, sem við sjáum hér greinilega.

Telur hv. þingmaður ekki að þetta sé mikið áhyggjuefni?