149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:42]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Herra forseti. Ég kem hingað til að lýsa sömu eða svipuðum sjónarmiðum í þessu máli og fram koma í niðurstöðum umsagnar Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Undir lok þeirrar umsagnar stendur eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Það er niðurstaða Siðfræðistofnunar að mikilvægt sé að flýta ekki um of afgreiðslu þessa frumvarps.“

Þessu er ég sammála og til þess liggja margar ástæður, einkum þær að hér er ekki bara um að ræða einhvers konar læknisfræðilegt úrlausnarefni heldur líka siðferðilegt, tilfinningalegt, trúarlegt, menningarlegt og jafnvel eitthvað fleira.

Ég vil einnig andmæla þeim skilningi sem mér finnst hafa komið fram hjá nokkrum ræðumönnum í dag að það sé einhvers konar mælikvarði á stuðning við kvenfrelsi hversu margar vikur af meðgöngu maður telji að megi líða áður en frelsi til fóstureyðinga skerðist. Umræðan um þetta mál er ekki keppni í kvenfrelsi.

Erindi mitt í þennan ræðustól er fyrst og fremst að hvetja til varfærni og mér liggur við að segja meiri hæversku og tillitssemi við sjónarmið þeirra sem eru mótfallnir þessu máli, eins og það stendur, af einlægum og tilfinningaríkum ástæðum.

Ég vil, með leyfi forseta, fá að vitna í annan kafla í áliti Siðfræðistofnunar Háskólans. Hann er þessi, með leyfi forseta:

„Í annars mjög ítarlegri og góðri greinargerð með frumvarpinu er lítið fjallað um siðferðilega stöðu fósturs. Það er rétt í þessu samhengi að draga betur fram þann þátt. Almennt er litið svo á að siðferðileg staða fósturs styrkist eftir því sem á meðgönguna líður. Inngrip sem hafa það að markmiði að rjúfa þungun og þar með eyða fóstri verði því þungbærari og siðferðilega vafasamari því lengra sem líður á meðgönguna. Á einhverju stigi er litið svo á að þungunarrof sé ekki lengur siðferðilega réttlætanlegt. Hvar þessi lína skuli dregin er erfitt siðferðilegt mat. Í lögum nr. 25/1975 var hún dregin við 12. viku meðgöngu og til viðbótar leyfð undantekningartilvik frá reglunni.

Líta verður svo á að þessi tímamörk marki ekki einvörðungu þann tíma þar sem kona getur tekið ákvörðun um þungun eða ekki þungun, heldur sé þetta einnig sú siðferðilega lína sem sátt ríkir um að draga og marka þar með rétt fósturs til verndar. Flestir telja að fóstur sem er komið með getu til að lifa sjálfstæðu lífi utan líkama móður eigi rétt á vernd óháð vilja móður eða nokkurs annars (nema líf eða heilsa móður sé í hættu eða fóstur eigi sér ekki lífsvon). Í þessum tilvikum er litið svo á að fóstrið (barnið) þiggi ekki siðferðilegt gildi sitt frá vilja móður eða annarra sem að því standa heldur hafi það eigið gildi og eigi þar með sjálfstæðan rétt til lífs. Lífvænleiki utan líkama móður er í greinargerð miðaður við 21. viku og 6 daga. Þar liggur grundvöllur þeirrar 22 vikna viðmiðunarlínu sem fram kemur í frumvarpinu. Velta má upp þeirri spurningu“ — segir Siðfræðistofnun Háskólans — „hvort hún liggi ekki of nálægt þeim mörkum sem hér um ræðir.“

Ég vil aftur vitna til lokaorða í umsögn Siðfræðistofnunar Háskólans, með leyfi forseta:

„Það er niðurstaða Siðfræðistofnunar að mikilvægt sé að flýta ekki um of afgreiðslu þessa frumvarps. Í fyrsta lagi telur Siðfræðistofnun varasamt að heimila þungunarrof allt til 22. viku því þá getur fóstur verið orðið lífvænlegt utan líkama móður. Í öðru lagi þarf að huga vel að þeirri spennu sem er á milli þessa frumvarps og samnings Sameinuðu þjóðanna um rétt fatlaðs fólks. Hér eru í húfi grundvallarspurningar og álitamál um siðferðisstöðu fósturs, rétt fatlaðs fólks og sjálfsákvörðunarrétt kvenna sem þarfnast djúprar og upplýstrar umræðu í samfélaginu. Umsögn þessi er hugsuð sem innlegg í þá umræðu.“

Í því ljósi og með þessari röksemdafærslu, sem ég er að mestu leyti sammála, vil ég einfaldlega hvetja til þess að farið verði hægar yfir í þessu máli og helst af meiri hæversku en mér finnst liggja í þessu frumvarpi.