149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[19:19]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú einu sinni svo að núverandi löggjöf gerir ráð fyrir undanþágu á gildandi lögum á þeim grunni að fóstur sé fatlað. Það er bein lagaleg mismunun á grundvelli fötlunar. Þannig er það einfaldlega og þess vegna spyr ég.

Ég ætla að víkja að öðru sem fram kom í máli hv. þingmanns. Hann vísar í rannsóknir sem tala um vanlíðan kvenna eftir þungunarrof og segist hafa áhyggjur af því að fella eigi út ráðgjöfina sem konu er skylt að sækja núna vilji hún fara í þungunarrof. Ég vil í fyrsta lagi leiðrétta það, ekki er verið að fella út þá ráðgjöf heldur einfaldlega gera hana valkvæða. Ekki þurfa allar konur á félagslegri ráðgjöf að halda þegar þær fara í þungunarrof. Það er alla vega ekki verið að fjarlægja ráðgjöfina heldur aðeins þá skyldu að fullorðin kona sitji undir einhvers konar félagslegri ráðgjöf um það hvort hún þurfi á heilbrigðisþjónustu að halda eða ekki.

Mig langar að spyrja í samhengi við þær rannsóknir sem hv. þingmaður vísar í hvort hann þekki hvernig konum sem eru neyddar til þess að ganga með börn sem þær vilja ekki ganga með líður að því loknu, hvort hann þekki þær afleiðingar sem fæðingar geta haft á konur, þá hættu sem meðganga og fæðing setja líf kvenna í, hversu alvarleg áhrifin eru og hversu mikil þau geta verið á líf kvenna.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi lesið opið bréf sem fæðingarlæknir skrifaði til annars hv. þingmanns, Ingu Sæland, sem er á sömu skoðun og hv. þingmaður. Læknirinn talaði um ástæðurnar fyrir því að við þurfum að gefa rýmra leyfi fyrir alvarleg félagsleg tilfelli og í því samhengi vanlíðan. Ég vil biðja hv. þingmann um að ímynda sér 13 ára barn sem móður, sem er í erfiðum félagslegum aðstæðum og hefur ekki rétt á að sækja sér þungunarrof eftir þennan tíma eins og lögin eru núna. Hvað finnst honum um vanlíðan þessa barns yfir því að þurfa að ganga með barn vegna þess að einhverjum körlum finnst lífið heilagt?