149. löggjafarþing — 102. fundur,  13. maí 2019.

endurskoðun stjórnarskrárinnar.

[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég held að við hv. þingmaður séum ekkert of ósammála í þessu máli. Í fyrsta lagi er það svo að þingið þiggur sitt umboð frá þjóðinni, ávallt, og því vil ég ekki tefla þingi og þjóð fram sem andstæðum heldur sitjum við hér í umboði þjóðarinnar. Og í þessu tiltekna máli sem hv. þingmaður reifar, þ.e. stjórnarskránni, erum við með mjög skýra leiðsögn frá þjóðinni í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem hv. þingmaður nefndi í sinni fyrri spurningu.

Og fyrst hv. þingmaður velti því upp hver sé í raun og veru leiðsögnin eða leiðarljósið í þessari vinnu er það svo að við höfum að sjálfsögðu horft til þess sem kom út úr þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki síst þess vegna er auðlinda- og umhverfisákvæðum forgangsraðað í þeirri vinnu.

En hér var auðvitað líka spurt: Á að byggja á drögum stjórnlagaráðs? Svarið við því var játandi. En ég hef líka sagt að ég líti ekki svo á að þar með séum við bundin frá orði til orðs þeim ákvæðum heldur byggjum við á þeim grunni og vinnum áfram á þeim grunni sem þar var lagður og þjóðin gaf okkur leiðsögn um í þessari atkvæðagreiðslu.

Ég vona að þetta svari spurningu (Forseti hringir.) hv. þingmanns.