149. löggjafarþing — 103. fundur,  13. maí 2019.

tilkynning.

[17:10]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Eins og forseti gat um er hér lagt til að dagskrá verði óbreytt, að því undanskildu að fyrsta málið, svokallað þungunarrof, falli af dagskrá í dag. Í 3. umr. um það mál biðluðu þingmenn, bæði stjórnarmeirihlutans og stjórnarandstöðu, til hv. velferðarnefndar um að hún tæki málið til endurskoðunar með það að markmiði að skapa mætti breiðari sátt um þetta viðkvæma mál.

Það var ekki gert. Fundur var haldinn, en að því er virtist eingöngu til málamynda. Síðan þá hefur umræða um þetta mál í samfélaginu þróast mikið. Nú bættist við það síðast í dag að hæstv. forsætisráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra héldu því fram að þetta mál væri í raun komið frá Sjálfstæðisflokknum, sem ég veit ekki hvort að er sanngjörn staðhæfing.

Í öllu falli er fullt tilefni til þess að fresta afgreiðslu þessa máls með það að leiðarljósi að varðveita þá sátt sem ríkt hefur um þessi viðkvæmu mál í íslensku samfélagi til þessa.