149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[14:49]
Horfa

Frsm. minni hluta velfn. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er nokkuð sammála hv. þm. Ólafi Þór Gunnarssyni. Það er þessi ábyrgðarhluti sem er mjög mikilvægur og það sem mætti, ég vil ekki segja laga, það þarf kannski að hnykkja betur á því.

Nú erum við að tala um þennan hatt yfir ákveðinni stefnu. Þar undir fellur ábyrgð starfsfólks. Það sem ég er aðallega að tala um er að gera þurfi skýran greinarmun á því hvort um er að ræða stjórnendur eða hvort um er að ræða starfsfólk. Við höfum heyrt sögur af því að starfsfólk vilji ekki ráða sig til starfa á vissar stofnanir af því að það er ekki nægilega skýrt, eins og það er í dag, hvernig farið verði með mál komi eitthvað upp á. Það er því mjög mikilvægt, og kannski er það leiðin, að skýra þetta betur í þeim lögum sem hv. þingmaður nefndi. En í mínum huga þarf þetta að vera skýrt aðgreint að stjórnendur hljóta að þurfa að bera ábyrgð á þeirri stofnun sem þeir stjórna. Starfsfólkið gerir sitt, en stjórnendur verða að hafa þessa aðalábyrgð.