149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:44]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir gott svar. Aðeins meira um Landsvirkjun. Ég og hv. þingmaður höfum setið saman á fundum utanríkismálanefndar og á einn af þeim fundum komu einmitt fulltrúar Landsvirkjunar og Landsnets. Þar spurði einn nefndarmaður, hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, Landsvirkjun þeirrar spurningar hvort það væru einhverjir aðilar sem hefðu hagsmuni af því að orkupakka þrjú yrði hafnað. Þetta var opinn fundur og því er rétt að ræða þetta kannski enn frekar hér.

Forstjóri Landsvirkjun svaraði því til að já, það væru hagsmunir ákveðinna stóriðjufyrirtækja að hafna orkupakka þrjú. Hann rakti þetta aðeins frekar á fundinum og sagði fundarmönnum að samningsstaða Landsvirkjunar hefði styrkst verulega hin síðari ár með orkupökkunum öllum m.a., sem og umræðunni um sæstreng sem reyndar hófst 1961 eða 1962 ef ég man rétt. Það styrkir stöðu Landsvirkjunar með þeim afleiðingum að fyrirtækið hefur fengið aukinn arð af orkunni sem þjónar náttúrlega hagsmunum okkar allra, sem er gott.

Ég myndi vilja heyra aðeins meira frá þingmanninum varðandi þennan vinkil á málið, um orkuna sem við öll eigum og hvort það sé í raun undirliggjandi í þessari umræðu (Forseti hringir.) að einhver hagsmunaöfl hafi séð sér hag af því að halda á lofti röngum upplýsingum. Maður veltir því fyrir sér.