149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:15]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef lesið minnihlutaálitið frá utanríkismálanefnd, þ.e. frá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Ég get tekið undir að ég fann ekki neinar staðreyndir í því. Ég er reyndar kominn langt á leið með að lesa það í annað skiptið og reyni að merkja við beinar rangfærslur. En vandinn við orðalagið í nefndarálitinu er að það er svo mikið verið að gefa hluti í skyni án þess að segja þá. Þetta er algerlega í takt við það orðfæri sem hefur því miður verið notað mikið í þessu máli, að einhvern veginn búa til þá ímynd að eitthvað sé að án þess raunverulega að segja nákvæmlega hvað það er, sem gefur fólki tækifæri til að hreyfa markstangirnar alltaf til ef einhver mótrök koma. Og mótrökin hafa komið í miklum mæli.

Það sem hv. þingmaður sagði varðandi EES-samninginn er rétt. Við erum á svolítið viðsjárverðum tímum. Við sjáum mikla og vaxandi andstöðu í heiminum við alþjóðlega samvinnu. Þegar slík andstaða hefur birst hefur hún yfirleitt birst í allt öðru formi en beinni andstöðu fyrst.

Hvort það sé markmið Miðflokksins eða ekki veit ég ekki. Ég hef bara ekki fengið nógu skýr skilaboð um það og vonandi get ég fengið þau skilaboð hér í kvöld. En mér þætti best ef svo væri ekki. En ef það er tilfellið verðum við að ná að losa okkur frá einhverri gerviumræðu um málefni sem er í öllum grundvallaratriðum gott og fara svo yfir í það að ræða raunverulega (Forseti hringir.) um EES-samninginn og hans mörgu kosti.