149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að hv. þingmaður valdi þá leið sem hann fór. Ég sat í salnum og hlýddi á ræðu hv. þingmanns. Ég var að gagnrýna þetta vegna þess að mér leiðist að vera eitthvað að kýta við hv. þingmenn um hegðun þeirra. Mér finnst einhvern veginn ekki góður bragur á því. En ég verð að segja að mér finnst þetta óheiðarlegt, bara mjög óheiðarlegt. Mér finnst það ekki verjandi. Ég hugsa með mér, hv. þingmaður lætur eins og skoðanir Friðriks Árna Friðrikssonar og Stefáns Más Stefánssonar séu aðrar en þær eru. Er það sanngjarnt gagnvart þeim? Mér finnst það ekki. Mér finnst að fólk eigi að njóta sannmælis. Og mér finnst það ekki málefnalegt og ekki heiðarlegt og ekki rétt að flytja hér mál þeirra eins og þeir séu á annarri skoðun en þeir hafa svo skilmerkilega tjáð.

Ég ætla að ítreka, virðulegur forseti, með leyfi:

„Enginn lögfræðilegur vafi er á því að sú leið sem við lögðum til og lögð er til grundvallar í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra er í samræmi við stjórnarskrá.“

Ég skal endurtaka það eins oft og hv. þingmaður þarf til að það komist á hreint að þetta mál er ekki í bága við stjórnarskrá. Við vitum það nú. Það er bara á hreinu. (Forseti hringir.)

En það er ekki trúarleg sannfæring. (Forseti hringir.) Auðvitað hitnar í manni blóðið, okkur sem trúum á heiðarleikann, þegar maður upplifir vinnubrögð af þessu tagi. Þetta er ekki sæmandi.