149. löggjafarþing — 104. fundur,  14. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:09]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í ræðu minni hélt ég mig mjög eindregið að meginstefnu til við það lögfræðilega álit sem liggur hér fyrir sem ég tel, og hef skýrt það, að hafi sérstakt vægi í þessu máli. Ég vitnaði m.a. til þess á tveimur stöðum þar sem höfundar ræða hvernig ákvarðanir ESA geta haft áhrif á veigamikla þjóðfélagslegu hagsmuni, þ.e. nýtingu á orkuauðlindum þjóðarinnar annars vegar, þetta er á bls. 39. Hins vegar vísaði ég til þess, og þetta er svar mitt við spurningu hv. þingmanns og formanns hv. utanríkismálanefndar, sem segir á bls. 40, þar sem ákvörðunarvald hinnar erlendu stofnunar tekur a.m.k. óbeint til skipulags (Forseti hringir.) og ráðstöfunar á mikilvægri orkuauðlind þjóðarinnar — og síðustu þrjú orðin eru undirstrikuð eða skáletruð.