149. löggjafarþing — 105. fundur,  15. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:15]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst um það sem þingið og ríkisstjórn hafa gert. Þegar spurningar vakna um það hvort innleiðing tiltekinna EES-gerða sé samrýmanleg stjórnarskránni er leitað til sérfræðinga, stundum eins, stundum fleiri, um það að þeir semji lögfræðilegar álitsgerðir sem geti orðið grundvöllur ákvörðunar Alþingis að þessu leyti. Það var gert í þessu máli með sama hætti og hefur verið gert alloft áður en þó óvenjulegt að því leyti að leitað hefur verið til fleiri sérfræðinga og kallað eftir fleiri álitum um þessi stjórnskipulegu álitamál en í flestum málum sem við höfum fengist við þar sem svipaðar spurningar hafa vaknað. Ég vona að þetta skýri þann þátt í þessu.

Hvað varðar hitt atriðið, hæstv. forseti, spyr hv. þingmaður hvað við höfum að gera með íslensk orkumál í Brussel. Staðan er sú að með upptöku IV. viðauka við EES-samninginn 1994 voru orkumál þar inni. Orkumál hafa vissulega færst í auknum mæli inn á svið innri markaðarins með fyrsta og öðrum orkupakkanum svokallaða. Svo er einnig í þessu. Við sem þátttakendur í innri markaðnum hljótum að taka afstöðu til innleiðingar reglna sem gilda á innri markaðinum um orkumál nema við sjáum með einhverjum hætti ástæðu til að hafna slíkri innleiðingu. Það verður þá að vera á grundvelli (Forseti hringir.) einhverra raunverulegra hagsmuna, raunverulegra álitamála, raunverulega áhyggna sem við höfum, ekki bara vegna einhvers almenns pirrings í garð evrópsks samstarfs.