149. löggjafarþing — 105. fundur,  16. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:50]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sá ótti er algerlega óskiljanlegur, sérstaklega í ljósi þess að það að sýna þennan ótta og þora ekki að nýta þann rétt sem við höfum er til þess fallið að grafa undan EES-samningnum, búa til þau fordæmi að það verði sífellt erfiðara að nýta réttinn, búa til það fordæmi að við óttumst viðbrögð einhverra, ég veit ekki hverra, norskra embættismanna sem vilja ganga í Evrópusambandið, Evrópusambandsins sjálfs eða hvað sem kann að valda. En að sýna þann ótta er til þess fallið að þeir aðilar sem menn óttast færi sig upp á skaftið og það verði sífellt stærra og erfiðara skref fyrir okkur að taka að nýta þau réttindi sem þessi samningur tryggir okkur.

En af því að þetta snýr sérstaklega að þessari stofnun, ACER, þá er líka áhugavert að kynna sér hvernig málum er háttað þar á bæ þegar ágreiningur rís. Hjá stofnuninni er úrskurðarnefnd, skulum við kalla það, sem getur tekið fyrir ágreiningsmál, þ.e. það er hægt að áfrýja til þessarar úrskurðar- eða áfrýjunarnefndar ACER. En hverjir skipa þá nefnd? Jú, það er ACER sjálft. Stofnunin hefur með öðrum orðum vald til að úrskurða um eigin ákvarðanir, sem segir nú sína sögu um það hvers eðlis þessi stofnun er og hvert hlutverk hennar er.