149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:47]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Í þessu mikilvæga málefni sem við ræðum nú og skiptir þjóðina alla verulegu máli til framtíðar er að sjálfsögðu mikilvægt að hlusta á sérfræðinga, bæði álitsgjafa og þá sem hafa ritað greinar. Það hafa margir góðir sérfræðingar ritað greinar um þetta málefni og ég rakst á eina slíka í fréttamiðlinum Viljanum sem er eftir Kristin Sigurjónsson, rafmagnsverkfræðing. Mig langar aðeins að koma inn á hana vegna þess að ég held að það sem þessi sérfræðingur hefur fram að færa sé mjög athyglisvert og skipti máli.

Hann ræðir í þessari grein um sérstöðu raforkunnar meðal annarra orkugjafa. Hana verði að framleiða á sama augnabliki og hún verði notuð og það sama gildi um framleiðsluna, hún verður að vera jafn mikil á því augnabliki sem þörfin kallar eftir henni. Við sjáum því að raforka er ekki hefðbundin vara en engu að síður á að fara að skilgreina hana sem slíka. Evrópusambandið skilgreinir hana sem vöru í þessum orkupökkum. En raforkan lýtur allt öðrum markaðslögmálum en önnur orka sem hægt er að geyma, t.d. er hægt að geyma orku í rafhlöðum en í óverulegu eða mjög litlu mæli.

Ísland hefur mikla sérstöðu í orkumálum eins og við þekkjum. Það er ekki bara vegna þess að við eigum mikið af endurnýjanlegri orku heldur erum við t.d. með tvö stór uppistöðulón sem eru Þórisvatn og Hálslón sem hafa margra mánaða miðlun. Landsvirkjun hefur nýtt þetta til að framleiða minna rafmagn á sumrin en sumarrennslið segir til um og þá safnað í miðlunarlón til að geta framleitt meira á veturna en vatnsrennsli segir til um. Með þessari miklu miðlun vegna raforkuframleiðslu er raforkuverð á Íslandi nokkuð stöðugt.

Í Evrópu er aftur á móti lögð mikil áhersla á umhverfisvæna orkugjafa sem eru t.d. vindorkan og sólarorkan. Vandinn við þá orkugjafa er að þeir framleiða rafmagn eftir duttlungum náttúrunnar, má segja, bæði hvað vindinn og veðrið varðar, en raforkunotkun er aftur á móti lítið háð því nema þegar kemur að kyndingu á húsnæði. Til viðbótar þessu hefur Evrópusambandið stefnt að því að taka út óvinsæl orkuver eins og kola- og kjarnorkuver og nýta önnur dýrari orkuver og allt mun þetta leiða til hærra meðalverðs á raforku. Ef við berum þessa ólíku stöðu Íslands og Evrópu má sjá að verðmunur á milli Íslands og Evrópu hvað þetta varðar verður gífurlegur. Annars vegar verður rafmagnið nánast gefins í Evrópu á sumrin þegar vel liggur á veðurguðunum, ef svo má að orði komast, en hins vegar mun það verða verulega kostnaðarsamt þegar kemur að vetri og menn þurfi að fara að kynda. Við sjáum muninn á þessari stöðugu orku sem Ísland hefur á móti þeim miklu sveiflum sem eru í Evrópusambandinu.

Þá erum við komin nákvæmlega að því sem skiptir máli í þessu, það er sæstrengurinn og áhuga Evrópusambandsins á því að jafna þetta orkuflæði, nýta hreinu orkuna vegna þess að það eru orkuskipti fram undan, og stjórna þessu öllu saman, sem er náttúrlega endanlegt markmið Evrópusambandsins.

Það hefur mikið verið talað um að strengur til Evrópu verði ekki lagður, alla vega hér af stjórnarliðum. Hins vegar eru sæstrengir og aðrir jarðstrengir alltaf að verða algengari og ódýrari í framleiðslu. Það er mikil þróun í gangi. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Tímans vegna vil ég koma inn á þetta aftur á eftir og óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá þar sem ég mun víkja nánar að sæstreng.