149. löggjafarþing — 106. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:28]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðuna. Það kom fram áðan í ræðum og andsvörum að EES-samningurinn væri á leið í uppnám. Ég spurði hv. þm. Birgi Þórarinsson hvort ástæða samþykkis EES og EB á þessum fyrirvörum, þ.e. þeirri leið sem verið er að velja núna, gæti verið sú þeir vissu fyrir fram og væru þess fullvissir að slíkir fyrirvarar myndu ekki halda.

Í Noregi var orkupakki þrjú innleiddur með átta fyrirvörum og m.a. samþykkti Verkamannasambandið í Noregi þá innleiðingu á þeim forsendum að þeir fyrirvarar kæmu til. Núna 15 mánuðum seinna hafa þeir ekki verið settir formlega og Norðmenn hafa lýst því yfir að þeir hafi raunverulega verið gabbaðir til að samþykkja á fölskum forsendum. En í orkulöggjöfinni segir að ríki sem samþykkja þriðja orkupakkann verði hluti af innri orkumarkaði ESB, hvort sem ríkið er tengt eður ei. Það myndi þá eiga við um okkur Íslendinga eftir innleiðingu þar sem við erum ekki tengd.

Það eru því sterk rök fyrir því að sú undanþága sem hefur verið lýst af ráðamönnum eigi raunverulega að koma til í sameiginlegu EES-nefndinni.

En mig langar að spyrja: Sótti Ísland um undanþágu frá innleiðingu þriðja orkupakkans í meðförum málsins í sameiginlegu EES-nefndinni áður en það var sent heim í hérað til meðferðar, þ.e. áður en það var sett fram í þingsályktunartillögu þeirri sem við höfum til umfjöllunar nú?

Og ef það var gert: Hver voru rökin fyrir því að við fengjum ekki undanþágu þegar því hefur verið lýst yfir nú að við séum jú eyja og séum ótengd?