149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:50]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef mjög afdráttarlaust álit á þessu. Við höfum einfaldlega séð það of oft að ESA, í framgöngu sinni við að framfylgja stefnu Evrópusambandsins, hefur lagst á sveif með hreinni markaðshyggju en oft og tíðum á kostnað þess sem skilgreina mætti sem heildarhagsmuni þjóðarinnar. Sérstaklega hefur það bitnað á landsbyggðinni og myndi gera í mun ríkari mæli ef stefna eins og sú sem hv. þingmaður lýsti hér héldi áfram að festa sig í sessi og verða allsráðandi. Við höfum borið gæfu til þess á Íslandi að geta nýtt þessa umhverfisvænu og tiltölulega ódýru orku til að stuðla að uppbyggingu atvinnulífs í kringum landið og ættum að gera miklu meira af því. En með þessari leið, að láta markaðinn einfaldlega ráða, er komið í veg fyrir slíkt sem mun leiða til meiri samþjöppunar á höfuðborgarsvæðinu á Íslandi en ekki bara það heldur aukinni tilfærslu til annarra landa.