149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að lesa aftur síðustu setninguna í tilvitnuninni sem ég las áðan. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Það er þó háð því Ísland samþykki einnig innleiðingu orkupakka þrjú.“

Við vitum öll að Noregur getur ekki klárað innleiðingu á orkupakka þrjú fyrr en við höfum gert það. Norðmenn virðast vera á undan okkur, eru búnir að kynna sér orkupakka fjögur, kryfja hann og velta honum fyrir sér. Á meðan erum við, þingmenn á hinu háa Alþingi Íslendinga, engu nær, höfum ekki fengið neina einustu kynningu á því hvað felst í þessum fjórða orkupakka. Við hljótum því að spyrja hvort hluti þingmanna hafi fengið slíka kynningu. Ég trúi því ekki að stjórnarþingmenn séu að taka ákvörðun um að innleiða þriðja orkupakkann vitandi að annar, sem ber númerið fjögur, bíður handan við hornið, án þess að vita hvað í honum felst. Það getur bara ekki verið.