149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:20]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún fór nokkuð víða yfir sviðið en ég staðnæmdist við ákveðinn hluta ræðunnar þar sem hún varpaði fram þeirri spurningu hvort ekki væri rétt að fá álit hjá sameiginlegu EES-nefndinni um hvort við getum sett lagalega fyrirvara. Í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sem er sá samningur sem er grundvöllur sameiginlegu EES-nefndarinnar, segir í 111. gr., í þriðja þætti um lausn deilumála, með leyfi forseta.

„1. Bandalagið eða EFTA-ríki getur lagt deilumál er varðar túlkun eða beitingu samnings þessa fyrir sameiginlegu EES-nefndina í samræmi við eftirfarandi ákvæði.

2. Sameiginlegu EES-nefndinni er heimilt að leysa deilumálið. Henni skulu gefnar allar upplýsingar sem hún kann að þarfnast til þess að framkvæma nákvæma rannsókn á málinu, með það fyrir augum að finna lausn sem aðilar geta sætt sig við. Í þessum tilgangi skal sameiginlega EES-nefndin rannsaka alla möguleika til að viðhalda góðri framkvæmd samningsins.“

Ég hef hér fyrir fram mig innsent álit Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi þingmanns, ráðherra og sendiherra, sem varðar akkúrat þetta sama. Hann er eldri en tvævetur í stjórnmálum og hefur víða komið við og er reyndar einn af, ef svo má að orði komast, feðrum þessa samnings og hann hefur komist að sömu niðurstöðu.

Ég varpa því fram til hv. þingmanns: Getur verið að við ættum kannski að hlusta á sameiginlegu EES-nefndina og þá sem hafa farið fyrir okkur og þekkja betur til?