149. löggjafarþing — 107. fundur,  21. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:57]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Hún var mjög áhugaverð eins og fyrri ræður hans um þetta efni, þ.e. svona sögulegt yfirlit yfir virkjunarframkvæmdir á landinu. Það er mjög mikilvægt að fá þetta yfirlit í samhengi við þessa umræðu hér.

Ég vil aðeins bæta við þessa umfjöllun hans og koma inn á svokallaðar djúpboranir, sem eru þá væntanlega næsta skref í orkuöflun hér á landi. Ég rakst á athyglisverða grein á netinu sem kemur frá fréttaveitunni Reuters. Hún er á ensku þessi grein. En ef ég þýði nokkur atriði jafnóðum segir hér að verkefni sé í gangi á Íslandi, djúpborunarverkefni, undirbúningur að slíku verkefni, sem fjölmargir aðilar koma að í samstarfi við breska aðila og bandaríska og fleiri fyrirtæki frá einum 11 löndum. Ég kem nánar inn á þessa grein á eftir vegna þess að hún er mjög athyglisverð, tiltölulega nýleg grein. Þar segir sem sagt að hugmyndin sé sú að Ísland komi til með að framleiða allt að fimm til tíu sinnum meiri orku með þessum hætti, þ.e. djúpborunum. Djúpboranir eru borholur upp á rúma 2 km ofan í jörðinni til að komast í gríðarlegan jarðhita. (Forseti hringir.) Tilgangurinn sé sá að þetta verði undirbúningur að því að flytja út orku frá Íslandi. Ég ætlaði einmitt að spyrja hv. þingmann (Forseti hringir.) út í þetta, hvað honum finnst um þetta í ljósi þess sem hann sagði hér áðan.