149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:00]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni fyrir hugleiðingar hans. Hann spurði hvað mér fyndist um nýjar hugmyndir eða hugmyndir um djúpboranir og þá líklega í þeim tilgangi að beisla einhverja orku sem þar er að finna, líklega hita eða varma. Ég verð að viðurkenna það og játa að ég hef enga þekkingu á djúpborunum, bara ekki nokkra, en ég hef einhverjar hugmyndir um hvað fer fram neðan jarðar, þ.e. það hitnar sífellt eftir því sem neðar dregur í jarðskorpunni og ég geri mér grein fyrir að þar er næsta takmarkalítil hitaorka sem mannkynið gæti kannski í framtíðinni leitað til til að fá orku og beislað hana og ég get ekki séð annað en að það sé bara hið besta mál.

Ég geri mér ekki grein fyrir hvort það séu einhverjar sérstakar afleiðingar af því að leita eftir slíkri orku, ég átta mig ekki á hvað það gæti verið. En það má vera að það sé eitthvað. Ef við náum að þróa tækni það mikið að það sé hægt þá held ég að víða sé hægt að leita fanga í jarðskorpunni, bæði eftir hita og orku sem hægt er að breyta í rafmagn og aðra hluti. Þannig að framtíðin virðist björt eftir því sem tækninni fleygir fram. En ég vil líka benda á aðra möguleika á öflun orku eins og t.d. sjávarfallaorku og vindorku og ég hef kynnt mér það örlítið meira en djúpboranir.