149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:36]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Ég get ekki dregið aðrar ályktanir af svari hv. þingmanns en þær að staðan sé einmitt sú að stjórnvöld hér á landi treysti sér ekki til að leggja fram eigin orkustefnu fyrir landið fyrr en þau eru komin í þá stöðu að þurfa að þiggja slíka stefnu að utan. En hvað varðar norska stjórnlagadómstólinn sætir það í fyrsta lagi furðu að menn skuli ekki, eins og hv. þingmaður reyndar nefndi, vilja bíða með innleiðingu og sjá hvað kemur út úr því. Það er einfaldlega, eins og ég nefndi áðan, röng röð hlutanna en pólitískt séð er það líka ákaflega sérkennilegt, sérstaklega í ljósi þeirra miklu efasemda sem stuðningsmenn allra stjórnarflokkanna hafa gagnvart þessu máli. Maður hefði haldið að stjórnarflokkarnir myndu binda vonir við niðurstöðu norska stjórnlagadómstólsins, þær vonir að hann myndi verja rétt okkar um leið og hann ver rétt Noregs.