149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:43]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðuna sem er þó ekki lokið. Ég hlakka til framhaldsins vegna þess að það á eftir að fara yfir restina, u.þ.b. helming af þeim fyrirvörum sem Norðmenn hafa sett við innleiðingu orkupakka þrjú. Þessir átta fyrirvarar Norðmanna eru raunverulega merkilegt mál, afar merkilegt mál, og það er merkilegt mál að enginn reki skuli gerður af hálfu íslenskra stjórnvalda til að rýna þessa fyrirvara, til að rýna þá til gagns og ástæður þess að þeir eru fram komnir og rýna til gagns í þá staðreynd að þrátt fyrir að þeir séu fram komnir hafi ekkert hreyfst í því máli í 14 mánuði, þrátt fyrir að kveðið sé á um þessar sex mánaða reglur sem eru gegnumgangandi í gegnum samninginn og eru settar sem viðmið til að leysa ágreining eða einhver vandamál sem upp kunna að koma.

Er ekki merkilegt að þeir aðilar sem eiga undir hagsmuni í fjárfestingu á orkumarkaði virðast allir sem einn umgangast þá fyrirvara sem eru settir, norska eða íslenska má einu gilda, á þann hátt að til þeirra muni ekki koma, þ.e. að þeir muni ekki hindra þau markmið og þá stefnu sem felst í orkupökkum Evrópusambandsins? Svo virðist sem menn séu þess fullvissir, í þeim skrefum sem þeir stíga nú í sínum fjárfestingum og í sinni stefnumótun, að umræddir fyrirvarar komi ekki til með að hindra nokkurn skapaðan hlut.