149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðuna. Það sem hann kom inn á strax í byrjun ræðunnar og sneri að þeirri stöðu sem Norðmenn kæmust í yrði niðurstaðan sú að við vísuðum málinu til hinnar sameiginlegu EES-nefndar vakti athygli mína og mig langar að spyrja hv. þingmann örlítið nánar út í það. Framan af málinu, ég held að ég hafi komið inn á það í fyrstu eða annarri ræðu minni við síðari umr. — því hefur verið haldið ítrekað fram og alveg ótrúlega oft og af mörgum meintum málsmetandi aðilum að andstaðan við þriðja orkupakkann væri fyrst og fremst keyrð áfram og studd af einhverjum norskum hagsmunum.

Ég kom inn á það í minni fyrstu eða annarri ræðu að ég kannaðist svo sem ekki við þá málafylgju Norðmanna, en ég get ekki talað fyrir hönd allra efasemdarmanna um orkupakkann ef við horfum til þess að það er rétt um helmingur landsmanna. Það sem vekur athygli mína núna eru vangaveltur hv. þingmanns um að staða Norðmanna myndi opnast hvað það varðar að koma sínum átta fyrirvörum inn til sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem þeim tókst ekki í fyrstu atrennu. Og hvort hann telji þá að m.a. þessi mikla pressa sem virðist vera frá ríkisstjórnarflokkunum á að keyra þetta mál óbreytt í gegn með sem minnstri umræðu eigin flokksmanna tengist því einhvern veginn að menn séu að aðstoða norsk stjórnvöld við að finna sig ekki í þeirri óþægilegu stöðu að koma málinu inn til sameiginlegu EES-nefndarinnar (Forseti hringir.) svolítið gegn þeirra vilja í augnablikinu.