149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:33]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, áhuginn er mikill og er að aukast og ekki bara á Íslandi, heldur einnig í öðrum löndum eins og Noregi sem hefur komið fram í þessari umræðu, þ.e. í löndum sem eiga mikið af endurnýjanlegri hreinni orku. Ég ætla ekki að standa hér og segja að ég undrist eitthvað þennan áhuga. Ég skil þessa menn vel, þeir eru fjárfestar, þeir standa í fjárfestingum og þeirra vinna er að láta fé vinna fyrir sig, að koma fé í slíkar fjárfestingar að sem best arðsemi komi til. Þessi skiljanlegi áhugi þeirra manna fer hins vegar ekki endilega saman við samfélagslega hagsmuni á svæðum eins og á Íslandi. Það er ekkert endilega svo að markaðsvæðing á þessum þáttum sé almenningi til hagsbóta, eins og reyndar hefur verið sýnt fram á í löndum eins og Svíþjóð þar sem markaðsvæðing var aukin og aðgengi fólks að seljendum orku jókst, þ.e. þeim fjölgaði sem seldu en hagurinn var minni. Þess vegna held ég að það sé gríðarlega mikið atriði á þessum tímapunkti að hér sé farið í þjóðhagslega, samfélagslega og efnahagslega greiningu á áhrifum þessara áforma á samfélagið Ísland.