149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[07:37]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einmitt heila málið. ACER er ætlað að skera úr um þau álitaefni sem upp koma. Það verða ekki íslensk stjórnvöld sem gera það. Mér finnst umhugsunarvert að yfirlýsingar EFTA og Evrópusambandsins munu einmitt ekki endilega draga úr því að hagsmunaaðilar nýti rétt sinn til að höfða skaðabótamál. Ég get séð fyrir mér, eins og ég nefndi aðeins áðan, að þeir sem lagt hafa töluverða fjármuni í sæstrengshugmyndir, orkufyrirtæki og aðilar sem vilja reisa hér vindmyllugarða, muni sækja rétt sinn ef ekki er rétt staðið að málum. Ég tel engan vafa leika á því.

Allt þetta ferli felur í sér lagalegu óvissu. Það er enginn vafi á því. En svo er aftur hitt, að lögaðilar gætu einnig höfðað mál. Höfum við eitthvað skoðað með hvaða hætti það getur birst? Einhverjir hafa sagt að við séum búin að setja upp einhverja fyrirvara sem gagnist Íslandi. Í Noregi var það gert en það gekk ekki eftir. Þá veltir maður fyrir sér: Er það vegna þess að samningurinn er samningur milli landa, á milli þjóða og milli svæða ef út í það er farið? Ef þessir aðilar sitja hver í sínu horni og setja upp einhverja fyrirvara þá gengur samningurinn kannski ekkert eftir. Það er aldrei ætlunin að taka mark á þeim fyrirvörum sem settir eru í hverju landi fyrir sig.