149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:10]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé rétt athugað hjá hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni, ég held að Neytendasamtökin hafi ekki veitt umsögn um málið. Nú segi ég þetta bara eftir minni, ég man ekki eftir að hafa lesið umsögn frá þeim. Ég man eftir umsögn ASÍ sem hefur málefni hins almenna borgara í miklum forgrunni í sínu mati. Það er skemmst frá því að segja að umsögn ASÍ er mjög neikvæð um þetta mál. Menn verða bara að lesa hana í því samhengi.

Ég er ekki búinn að lesa aftur en hef lesið samviskusamlega greinar Sjálfstæðisþingmannanna sem hafa birst undanfarnar vikur eftir að þingflokknum snerist hugur í þessu máli. Eins og ég kom inn á í ræðunni kveikti grein sem hv. þm. Vilhjálmur Árnason birti í Fréttablaðinu í morgun á þeirri peru hjá mér að það væri ekki neitt samræmi á milli þeirrar áherslu sem stuðningsmenn orkupakkans, meðan þeir sáust enn í þingsal, lögðu á mikilvægi þessa máls hvað neytendavernd og gegnsæi orkumarkaðarins varðar, samanborið við það sem mig minnti að stæði í þingsályktunartillögu utanríkisráðherra og síðan meirihlutaáliti utanríkismálanefndar né heldur framsöguræðum utanríkisráðherra eða framsögumanns meiri hluta utanríkismálanefndar. Og það stóð heima, það er ekki á neinn máta hægt að lesa það út úr þeim gögnum sem liggja hér fyrir að aukin neytendavernd sé (Forseti hringir.) eitthvert kjarnaatriði í þessu máli. Þetta virðist vera röksemdafærsla sem fannst í óðagotinu þegar menn voru að leita að fyrirvörunum fyrir nokkrum dögum.