149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:03]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni fyrir athugasemdir eða ábendingar hans. Það er alveg rétt að menn hafa helst borið fyrir sig að þetta bæti svo neytendavernd án þess að það sé rökstutt mikið meira en það. Ég vil benda á að orkuauðlindirnar, dreifing þeirra, virkjun, er í höndum ríkisins hér á landi og allt öðruvísi en úti í Evrópu. Verðið hefur verið lágt og mun lægra en í Evrópu. Ég geri mér vonir, frú forseti, um að verðið gæti lækkað enn frekar til neytenda hér innan lands einmitt vegna þess að við erum búin að borga niður stofnkostnaðinn. Við erum búin að borga niður dreifikerfið, erum búin að borga niður virkjanirnar og það er komið að því að þjóðin, almenningur í landinu, njóti þeirra ávaxta.