149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé laukrétt hjá hv. þingmanni, að liðsmenn þessara gömlu, rótgrónu flokka, þekkja þá ekki lengur. Ég er líka alveg viss um að margir Framsóknarmenn þekkja ekki sinn gamla flokk þó að hann sé með belti og axlabönd, álímdan hártopp, í smekkbuxum og nýjum skóm. Ég er ekki viss um að margir Framsóknarmenn kannist við sinn gamla flokk, jafnvel í slíkum skartklæðum.

En þannig er þetta nú að tímarnir breytast og flokkarnir með. Hver hefði trúað því að Framsóknarflokkurinn væri í þessari múnderingu og farinn úr sauðskinnsskónum á þessum tíma? Og hver hefði trúað því að Vinstri grænir væru hér að markaðsvæða raforkuna? Og hver hefði trúað því að Sjálfstæðisflokkurinn hlustaði ekki á sitt fólk á 90 ára afmælinu? Maður hefði nú haldið að menn mundu jafnvel gyrða sig í skartklæði og vanda sig í samskiptum við flokksmenn akkúrat á þessum tímapunkti. En svo er ekki.