149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar því að það staðfestir í sjálfu sér það sem ég hafði gert mér í hugarlund. Mér fannst einnig býsna sérstakt við það ráðslag að fá þennan ágæta sérfræðing hingað til lands að það skyldi verða alveg í blálokin og nánast í flaustri eins og mjög margt í þessu máli er. Það er svo margt í þessu máli sem virðist hafa verið flaustrað til. Ég hef tilhneigingu til að hafa áhyggjur af því þegar stór mál eiga að afgreiðast í miklum flýti, að því er virðist án mikillar umræðu og án þess að menn gaumgæfi verulega þær afleiðingar sem málið sem slíkt hefur.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér um að þetta mál sem slíkt þurfi miklu meiri umræðu. Og þó að þessi umræða okkar hér sé mjög góð og gild spyr ég: Þarf (Forseti hringir.) þetta mál ekki miklu betri umræðu þar sem fylgjendur málsins gerðu grein fyrir málinu og reyndu að tala fyrir því?