149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:38]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla fyrst að geta þess, og að svara hv. þingmanni og þakka honum fyrir andsvarið, að víst hef ég séð þá hönnun sem Títan-félagið lagði til grundvallar við Búrfell árið 1918. Af því að það er nú orðið í tísku hér á Alþingi að koma með alls konar blaðsnepla í ræðustól og ota framan í myndavélar væri það sannarlega þess virði að mæta hér í ræðustól með mynd af þessum mannvirkjum og reka þær í linsu myndavélarinnar þannig að alþjóð mætti sjá. Því að það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir, þetta var lýsandi dæmi fyrir þann stórhug sem bjó í brjósti skáldsins og samstarfsmanna hans og hvernig þeir sáu fyrir sér, fyrir öllum þessum árum síðan, fyrir heilli öld síðan, að það væri nauðsynlegt fyrir Ísland að byggja upp stóriðju. Sem raungerðist svo u.þ.b. 50 árum síðar.

Ég verð hins vegar að viðurkenna og játa það hér og nú að ég hef ekki séð þessi málaferli Evrópusambandsins gegn 12 ríkjum út af útboði. Ég hef ekki kynnt mér eða séð þau skjöl og það efni. Þannig að ég verð að láta það ógert að svara þingmanninum öðruvísi en svo. Ég verð að vera einlægur í því, ég hef ekki séð það.