149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:51]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það er alveg rétt, ég get samsinnt honum í því, að þetta er merkilegt viðtal en þó ekki einstakt því að svipuð viðtöl hafa átt sér stað og eru til á prenti og á ljósvakamiðlum við leiðtoga Vinstri grænna og leiðtoga Framsóknarmanna.

En varðandi innihald ræðunnar kemur hv. þingmaður inn á það að fjármálaráðherra hafi vísað í EES-samninginn og sagt að við séum hluti af honum. Það er alveg rétt. 111. gr. samningsins fjallar einmitt um lausn deilumála og hún er öðruvísi en sú leið sem hér er verið að fara. Þar segir í 2. mgr.:

„Sameiginlegu EES-nefndinni er heimilt að leysa deilumálið. Henni skulu gefnar allar upplýsingar sem hún kann að þarfnast til þess að framkvæma nákvæma rannsókn á málinu, með það fyrir augum að finna lausn sem aðilar geta sætt sig við. Í þessum tilgangi skal sameiginlega EES-nefndin rannsaka alla möguleika til að viðhalda góðri framkvæmd samningsins.“

Mig langar til að fá afstöðu þingmannsins til þess hvort einhver vafi leiki á því hvort leiðin sem hér er valin sé rétt eða röng.