149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:06]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að halda þeirri vegferð áfram sem við höfum verið á í Miðflokknum, og rifja upp hvernig raforkuverð hækkaði við orkupakka eitt og tvö. Þrátt fyrir að stjórnmálamenn, ráðherra, hafi fullyrt að svo yrði ekki áttu þær fullyrðingar sér enga stoð. Það er að sjálfsögðu ábyrgðarhlutur þegar stjórnmálamenn og ráðherra málaflokksins halda því fram við almenning og fyrirtæki í landinu að engar breytingar verði á raforkuverði og síðan kemur allt annað á daginn. Við getum séð það og höfum sýnt fram á það í þessari umræðu, við Miðflokksmenn. Við höfum bent á blaðagreinar frá 2005 um hækkun á raforkuverði og verulegar hækkanir til heimila.

Ef maður skoðar maður bréfaskriftir sem fram fóru í ráðuneytinu á þessum tíma í aðdraganda innleiðingar á fyrsta orkupakkanum kemur fram, með leyfi forseta, ef les ég úr einu bréfi:

„Í iðnaðarráðuneytinu er unnið að frumvarpi til raforkulaga. Í því er m.a. kveðið á um aðskilnað samkeppnis- og einokunarþátta í rekstri raforkufyrirtækja þannig að framleiðsla og sala verður aðskilin frá flutningi og dreifingu. Við það er miðað að félagslegum skyldum verði aflétt af raforkufyrirtækjum.“

Hvað þýddi það? Það þýddi að ekki mátti lengur niðurgreiða t.d. til afskekktra bæja o.s.frv., þar sem dýrt var að leggja rafmagn, þannig að félagslega þættinum og skyldunum sem eru svo mikilvægar var aflétt. Ég vildi heyra hjá hv. (Forseti hringir.) þingmanni: Er þetta ekki alveg dæmi um það, hv. þingmaður, (Forseti hringir.) að þessir orkupakkar eiga ekkert við okkar (Forseti hringir.) harðbýla og dreifbýla land?