149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:04]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. En þegar ég sagði að það væri klókt af sambandinu að láta reyna í sífellu á löggjöf og reglugerðir fyrir dómum eða endanlegu úrskurðarvaldi meinti ég það ekki á þann hátt að klækjabrögð væru í því fólgin heldur að það væri snjallt í ljósi markmiða sambandsins um að reglur séu skýrar og einsleitar og yfir vafa hafnar, að það leiki ekki vafi á því hvernig löggjöfin er, hvernig hún á að virka og hvenær hún á við og hvenær ekki.

Ef slík vafamál eru uppi á borðum er eðlilegt og siðaðra manna háttur að láta reyna á það fyrir dómstólum og þá fæst niðurstaða. Ef niðurstaðan er þannig að hún þjónar ekki markmiðinu, markmiðum sambandsins í þessu tilfelli, til að mynda um að ná samþættingu markaða, að fá ríki sambandsins sem og EES-ríkin til að vinna öll að og undir sama regluverki — ef hnökrar eru á því regluverki sem verið er að setja fram — er hægt að laga það og færa það betur að markmiðssetningum. Ég er einmitt með ræður tilbúnar sem varða einn af þessum yfirþjóðlegu valdhöfum, eins og ACER.

Ég er að bera það undir hv. þingmann hvort akkúrat þetta sé ekki klókt eða snjallt.