149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:49]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Sú ræða sem ég hélt hér er innsýn inn í framtíðina. Þó ekki svo fjarlæga framtíð vegna þess að það er tiltekið af Evrópubandalagsríkjunum að þessar reglugerðir muni taka gildi sumarið 2019 og aðlögunartíminn er 18 mánuðir, einungis 18 mánuðir héðan í frá. Það er ekki nema eitt og hálft ár og tíminn flýgur hratt á gervihnattaöld, eins og skáldið sagði.

Varðandi þetta langar mig til að rifja upp orð hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar sem er fræðimaður sem ég ber mikla virðingu fyrir, afskaplega þægilegur maður í allri viðkynningu og hefur fært hér rök fyrir ýmsum málum. En hann segir í grein, sem birtist í Kjarnanum, að mig minnir, að ACER sé ekki yfirþjóðleg stofnun — og byggir þau rök sín á því sem hefur legið fyrir þinginu og álitum ákveðinna manna sem hafa komið fyrir nefndina — en úrskurðir hennar séu samt endanlegir fyrir deiluaðila. Ég tel að í því felist þversögn. Hvernig getur alþjóðlegt yfirvald ekki verið en samt verið endanlegt fyrir deiluaðila, sem eru þá tveir ólíkir aðilar, tvö ólík þjóðríki eða sambönd þjóðríkja?

Ég verð að taka undir það sem hv. þingmaður sagði, það sem hér var gert hentar ekki okkur Íslendingum.