149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:35]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er a.m.k. alveg ljóst að þessi málflutningur stenst ekki. Þeir hv. þingmenn sem hafa haldið þessu fram verða að svara fyrir þetta. Ég vil hvetja hæstv. forseta til að beita sér fyrir því að við getum átt orðastað við þá þingmenn um þessar staðhæfingar þeirra sem við erum búin að hrekja.

Hér er ekkert að frétta af viðveru þessara þingmanna, flestallir þeirra eru væntanlega sofandi núna og það er nefnilega málið. Þeir fljóta sofandi að feigðarósi í þessu máli öllu saman.

Hv. þingmaður nefndi fleiri atriði sem ég tel að standist ekki. Ég tel það ekki standast að EES-samningurinn sé í uppnámi við það að nýta sér lögformlegan rétt sem er innan samningsins. Þetta eru svo einkennileg rök að maður er hálfgáttaður á þessu öllu, herra forseti.