149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:21]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er smágalli við þessa röksemdafærslu: Þessi árétting kom eftir viðtalið. Ég ætla aðeins að lesa aftur úr þessari áréttingu, með leyfi forseta:

„Valdheimildir ACER (ESA) ná ekki til ákvarðana um hvort sæstrengur verður lagður. Þær valdheimildir gilda einungis þegar slík tenging er til staðar. Því mun ekki reyna á þessi ákvæði nema Alþingi ákveði að tengja Ísland við raforkumarkað ESB með sæstreng og því getur enginn byggt rétt sinn á þessum ákvæðum.“

Enginn getur byggt rétt sinn á þessum ákvæðum. Þetta er frá Stefáni Má Stefánssyni og Friðriki Árna Friðrikssyni Hirst. Hv. þingmaður getur ekki sagt að hann hafi kynnt sér málið vel ef hann hefur ekki kynnt sér þessa áréttingu sem kemur í kjölfar umræðunnar og reyndar eftir viðtalið sömuleiðis líka. Til að árétta, svo það fari ekki á milli mála hvað hér er á ferðinni.