149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:56]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það eru ekki einungis týndu fyrirvararnir sem eru manni áhyggjuefni varðandi þessa þingsályktunartillögu heldur eru þarna atriði sem kölluð eru sameiginlegur skilningur.

Það vildi svo illa til að hæstv. ráðherra fór úr húsi áður en ég gat spurt hann út í þennan sameiginlega skilning vegna þess að þessi sameiginlegi skilningur virðist ekki hafa neitt lagalegt vægi. Ég var líka búinn að velta fyrir mér og hafði áhuga á því að vita hvernig þessi sameiginlegi skilningur varð til. Var það í símtali, á kaffihúsi eða yfir samloku og sódavatni? Hvernig er hann staðfestur?

Það kom stutt frétt í gær en hún var mjög snubbótt. Ég held að hæstv. ráðherra hafi þá verið í Brussel, ef ég man rétt, með EFTA-ríkjum á fundi og fyrirsögnin á fréttinni var „Ráðherra undirstrikar sameiginlegan skilning“.

Nú veit ég ekki hvernig hann undirstrikaði þennan sameiginlega skilning eða með hverjum eða hvort hann gerði það bara við sjálfan sig. Mig langar aðeins til að heyra ofan í hv. þingmann hvað hann getur sagt mér um þetta hugtak, sameiginlegan skilning. Vegna þess að það kemur fram ... Ég verð líklega að koma að því í seinna andsvari því að tíminn er farinn frá okkur. Mig langaði aðeins til að fá hugleiðingar hv. þingmanns um þetta hugtak.