149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:14]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta var nú einmitt það sem maður hrökk svolítið við þegar maður heyrði það. Ég verð að játa að þegar ég frétti af því að hæstv. ráðherra myndi koma hingað til fundar við okkur — og ég gladdist mjög yfir því — hugsaði ég með sjálfum mér: Nú fáum við svör við öllum þeim spurningum sem við höfum verið að leita svara við síðustu dægur. Nú verðum við stórum rólegri þegar ráðherrann er búinn að vera hér og hugsanlega getum við bara farið að klára umræðurnar, þess vegna.

En nei, þvert á móti. Eftir heimsókn ráðherrans er maður eiginlega enn óöruggari en fyrr, þar á meðal um þetta, að honum er óljóst hver hinn nefndi lagalegi fyrirvari er. Hann finnur sem sagt ekki týnda fyrirvarann frekar en við.

Auðvitað hefði verið æskilegast — og nú skil ég að hæstv. utanríkisráðherra hafi skyldum að gegna og þurfi að hitta einhverja erlenda pótintáta, en samt sem áður hafa svo margar spurningar vaknað hérna á undanförnum dægrum um þetta atriði og mörg önnur. Þess vegna vonaðist ég eftir því að ráðherra myndi koma með eitthvað annað í farteskinu en bull, ergelsi og firru. Því miður var það eiginlega það eina sem hann hafði í farteskinu; skapvonsku og skilningsskort á verkefninu. Það var alveg greinilegt á framkomu hans að hann ætlar ekkert að láta sér segjast við að innleiða gerðina svo vanbúna. (Forseti hringir.)

Það er enn tími, herra forseti. En það er áhyggjuefni að þetta skuli vera með þessum hætti, að ráðherrann skuli ætla sér að keyra málið áfram eins og hann ætlar að gera.