149. löggjafarþing — 110. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi að ég gæti sagt hv. þingmanni að ég gæti gert það. En svo vill til að þegar ég fór með síðustu ræðu mína og var að reyna að fá hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé til að eiga við mig orðastað þá hvarf hann bara á braut og ég sá undir iljarnar á honum. Ég tel nú, herra forseti, að ég hafi verið mjög kurteis í síðustu ræðu minni, ég lagði mig alla vega fram um að vera það hvort sem það hefur tekist eða ekki. En ég fór einfaldlega yfir þetta góða viðtal við þennan ágæta hv. þingmann og ég er svo sammála honum og við erum það Miðflokksfólkið. Við erum svo sammála honum í því, eins og hann segir, að hver sem ákvörðunin verður verði hún tekin á faglegum grunni og gefinn verði tími til að fara yfir hana. Það er mergurinn málsins.

Ákvörðunin sem við erum að taka er svo stór, þetta mál er svo stórt og hefur mikil áhrif. Það er alveg hárrétt og kemur svo berlega fram hjá þessum ágæta hv. þingmanni, reyndar fyrir ári og vika er langur tími í pólitík. Það getur vel verið að hann hafi skipt um skoðun eða að skipt hafi verið um skoðun fyrir hann eða eitthvað hafi komið honum til að snúa gjörsamlega við blaðinu í þessu efni. Það kemur reyndar fram í umræddu viðtali að bæði Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn höfðu ályktað sérstaklega um orkupakkann — þeir gengu reyndar báðir á bak orða sinna en ég fer kannski betur yfir það í seinna andsvari.

En hv. þingmaður spyr hvort hægt sé að fá þetta ágæta fólk til að tjá sig. Eftir að hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé hljóp á brott eftir að ég hafði vikið að honum einstökum orðum vinalega er ég hræddari en áður um að það sé erfitt.