149. löggjafarþing — 110. fundur,  25. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:10]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni kærlega fyrir ræðuna. Hún var áhugaverð fyrir margar sakir. En varðandi ummæli mín í ræðustól fyrr í kvöld, mig minnir að orðalag mitt hafi verið þetta — það er hljóðritað og verður ritað upp eftir mig, en það má vera að ég muni ekki alveg rétt, en ég held að ég hafi notað orðalagið að enginn venjulegur maður nennti að hlusta á slíkt óvitlaus. En huggun til hv. þingmanns er sú að hann er náttúrlega enginn venjulegur maður og hefur sýnt það og sannað við fjölda tækifæra þegar kemur að stjórnmálum og m.a. í þessari umræðu þar sem hann hefur gripið boltann á lofti og skilur nákvæmlega hvert verið er að fara þegar farið er kannski í flóknari álitaefni og hefur reyndar varpað fram afar mikilsverðum spurningum til þeirra sem hafa viljað keyra málið áfram eins og raun ber vitni.

Það sem mig langar til að inna hv. þingmann eftir er um áhrifin af orkupakka þrjú. Þeim hefur verið lýst hér sem núll, að þetta sé algjört núllmál, hafi engin áhrif, sem er þvert ofan í það sem hv. þingmaður lýsti í ræðu sinni.

Hvernig kemst hv. þingmaður að þeirri niðurstöðu? Þarf kannski að horfa á stærri mynd en birtist akkúrat bara í orkupakka þrjú? Er eitthvað meira sem kemur til með að fylgja, líkt og þegar orkupakka eitt fylgdi orkupakki tvö og orkupakka tvö fylgir orkupakki þrjú og rökin fyrir því að samþykkja orkupakka þrjú eru þau að við stóðum okkur svo vel í að innleiða orkupakka tvö?