149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:50]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ekki er hægt að segja annað en að miklar sviptingar séu í því máli sem við höfum verið að fjalla um, orkupakkamálinu.

Það hlýtur að teljast stórfrétt sem upplýst er og sagt er frá í breska stórblaðinu Times — eins og menn þekkja er það mjög virt blað — og sagt er frá á vefsíðu Morgunblaðsins, mbl.is. Þar er greint frá því að nafngreindur breskur fjárfestir, sem fer fyrir fyrirtæki sem heitir á máli þarlendra Atlantic Superconnection, leiti eftir því við bresk stjórnvöld að þau veiti fyrir sitt leyti heimild til þess að fyrirtækið leggi sæstreng hingað upp til Íslands. Markmiðið er að gera Bretum kleift, eins og segir í frétt mbl.is, að sækja raforku til Íslands í gegnum sæstreng. Greint hefur verið frá því að þetta fyrirtæki, Atlantic Superconnection Corporation, sé heiti á félagi breskra fjárfesta sem miði að því að fjármagna og setja upp 1.000 km langan sæstreng til Íslands. Það kemur sömuleiðis fram í fréttinni, sem er reist á frétt breska blaðsins Times, að fjárfestirinn sem þar fer fremstur hyggist fá fjárfesta til að leggja samtals 2,5 milljarða punda í verkefnið, sem sagt er að samsvari tæpum 400 milljörðum kr. Haft er eftir þessum forystumanni, Truell mun hann heita, að bandaríski bankinn JP Morgan, sem menn þekkja frá fyrri tíð, sem er bandarískur stórbanki, hafi veitt honum ráðgjöf og segi að um 25 fjárfestar sem taki þátt í innviðafjárfestingum séu mögulega reiðubúnir til að taka þátt í verkefninu.

Hvernig stendur þetta af sér gagnvart því viðfangsefni sem við erum með hér? Í margtilvitnaðri álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar er tekið fram á bls. 35, í neðanmálsgrein 62, að markaðsaðilar, eins og til að mynda þetta fyrirtæki, öðlist ekki rétt að orkupakkanum samþykktum til að krefjast þess að raforkutengingum verði komið á eða þær stækkaðar. En við þetta bæta höfundarnir eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ekki má þó gleyma því að hafni Orkustofnun umsókn fyrirtækis þar að lútandi gæti fyrirtækið snúi sér til ESA með kæru sem gæti endað með samningsbrotamál gegn Íslandi. Slík staða gæti reynst Íslandi erfið.“

Herra forseti. Við höfum nýlega reynslu af samningsbrotamáli vegna innflutnings á kjöti. Við sjáum að Hæstiréttur er nýbúinn að dæma mjög háar fjárhæðir vegna þeirra sem hafa sótt rétt sinn á grundvelli samningsbrota og að gengnum dómi í EFTA-dómstólnum. Sjá menn fyrir sér um hvaða fjárhæðir gæti verið að tefla hér? Spurningin sem yrði að leita svara við er: Myndi innlendur lagalegur fyrirvari duga til þess að vega upp þá þjóðréttarlegu skuldbindingu sem við erum búin að taka á okkur með því að innleiða m.a. reglugerð nr. 713/2009, eins og ráðgert er með hefðbundnum hætti? Reyndar má gera þá athugasemd og spyrja af hverju hún verður ekki innleidd með lögum frekar en með stjórnsýsluákvörðun.