149. löggjafarþing — 111. fundur,  27. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ef eitthvað er gerir það mig enn órólegri en fyrr og mér er nær að halda því fram að rétt væri að gera hlé á þessari umræðu þar til við getum haft uppi á hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, formanni utanríkismálanefndar, til að koma hingað og skýra okkur frá vitneskju hennar um þetta mál. Ég sé ekki betur en að hér séu komnar fram upplýsingar sem eru það mikilvægar að því verður að svara líkt og hv. þingmaður segir, að hér sé ekki fyrirstaðan, hún sé hjá stjórnvöldum í Bretlandi. Ég held að við hljótum að geta gert kröfu um að formaður utanríkismálanefndar komi hingað og skýri þetta út fyrir okkur.

Við reyndum á sínum tíma fyrir nokkrum dögum, þetta rennur svolítið saman, að eiga orðastað við Guðlaug Þór Þórðarson, hæstv. utanríkisráðherra, og það kom mér satt að segja á óvart hversu lítið hann virtist vita um þessi mál yfir höfuð. Ég fékk á tilfinninguna eftir að hafa átt orðastað við hann — hann hafði t.d. ekki kynnt sér umsögn lögfræðingsins Eyjólfs Ármannssonar sem er að mínu mati mjög mikilsverður punktur inn í þessa umræðu.

Að öllu þessu virtu get ég ekki varist þeirri hugsun að gera þurfi hlé á umræðunni þar til næst í hv. formann utanríkismálanefndar. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé hugsanlega til í að hlutast til um það að það sé gert, þannig að við fáum nánari fréttir af þessu og einnig að gera grein fyrir því hvaða upplýsingar hafa borist hingað, ekki inn á Alþingi heldur kannski til formanns (Forseti hringir.) utanríkismálanefndar um einmitt fjórða orkupakkann sem nú er tilbúinn og hvaða áhrif hann gæti hugsanlega haft að þessum þriðja pakka samþykktum.